fbpx

Það var okkur mikil ánægja að fá bréfið loksins sent til okkar varðandi að hafa hundinn Draco með í þjálfun fyrir þau börn sem óska eftir. Hann hefur sýnt það og sannað að hann hefur góð áhrif á þá vinnu sem börnin eru að vinna með. Hundaunnendur geta eflaust sammælst um að hundurinn veitir manninum ánægju, félagsskap og hlýju

Viljum við sérstaklega nefna lesturinn og lestraminni og eins hegðunarmótum og ekki síst börn með einhverfu sem er stærsti hópurinn okkar hjá Fræðslusetrinu Greininni ehf.

“Besti vinur mannsins“ 
Aðstoð hunda í daglegu lífi barna með einhverfu

Greinin er unnin út frá BA-verkefni Guðbjargar Snorradóttur og Helgu Maríu Gunnarsdóttur í þroskaþjálfafræðum undir leiðsögn Ingibjargar H. Harðardóttur, lektors, Menntavísindasviði, HÍ. Í greininni eru dregin fram nokkur atriði en verkefnið í heild sinni er hægt að nálgast á bókasafni Menntavísindasviðs HÍ og á eftirfarandi slóð: http://hdl.handle.net/1946/9412

heimild af síðu Einhverfusamtakanna

Hundaunnendur geta eflaust sammælst um að hundurinn veitir manninum ánægju, félagsskap og hlýju. Niðurstöður rannsókna styðja álit þeirra og hafa leitt í ljós að hundar auka tækifæri til samskipta og geta veitt eigendum sínum tilfinningalegt öryggi með sinni skilyrðislausu ást. Þessir eiginleikar hunda eru meðal annars ástæðan fyrir því að þeir hafa fengið mikilvæg hlutverk í gegnum tíðina, svo sem að veita einstaklingum með fötlun og fjölskyldum þeirra aðstoð í daglegu lífi.

Höfundar telja mikilvægt að kynna hvers vegna hundar geta verið vænlegur kostur sem aðstoð í daglegu lífi fyrir börn með einhverfu. Þannig viljum við stuðla að fjölbreyttara vali fyrir foreldra barna með einhverfu þegar tekin er ákvörðun um hvers konar þjálfun eða meðferð eigi að styðjast við í daglegu lífi barnsins.

Í ritgerðinni er sagt frá íslenskum og erlendum rannsóknum sem hafa það markmið að lýsa áhrifum þess að nota hunda með börnum með einhverfu, að undanskilinni einni rannsókn sem hefur það markmið að lýsa áhrifum þess að nota hunda með eldri borgurum sem glíma við minnissjúkdóma. Einnig eru sagðar reynslusögur foreldra barna með einhverfu sem hafa nýtt sér fyrrnefnd úrræði.