fbpx

Siðareglur þroskaþjálfa

1. Þroskaþjálfar standa vörð um réttindi og lífsskilyrði þeirra einstaklinga sem þeir starfa með.

2. Störf þroskaþjálfa grundvallast á virðingu fyrir mannlegri reisn og sjálfræði sérhvers einstaklings. Í því felst jafnframt viðurkenning á frelsi einstaklingsins til að taka eigin ákvarðanir.

3. Þroskaþjálfar hafa heildræna sýn að leiðarljósi. Þeir miða allt starf sitt við upplag og þarfir þeirra einstaklinga sem nýta sér þjónustu þeirra og leitast við að styrkja fólk til virkrar þátttöku í samfélagi sínu.

4. Þagnarskyldan er undirstaða trausts og trúnaðar milli þroskaþjálfa og þess sem nýtur þjónustu hans. Þegar miðla þarf persónulegum upplýsingum skal liggja fyrir samþykki þess sem í hlut á og nafnleyndar skal gætt sé þess óskað. Verði þroskaþjálfi var við brot á þagnarskyldu, í fjölmiðlum eða á öðrum samfélagsmiðlum, í rituðu máli eða á mynd, ber honum að bregðast við því.

5. Þroskaþjálfa ber að upplýsa um lagalegan rétt, þau tækifæri og þá þjónustu sem stendur þeim til boða sem nýtir sér þjónustu hans.

6. Þroskaþjálfa ber skylda til að ræða siðferðileg mál þegar tilefni er til, bæði við einstakling í þjónustu og samstarfsmenn og leita jafnframt leiðsagnar þegar hann er í vafa.

7. Þroskaþjálfa ber að gæta hagsmuna sérhvers einstaklings í samskiptum við stjórnkerfi og vera vakandi fyrir meðferð þess valds sem það hefur í för með sér.

8. Þroskaþjálfa er skylt að viðhalda faglegri þekkingu, siðferðilegri ígrundun og gæðum í daglegu starfi. Þroskaþjálfi ber ábyrgð á eigin starfi og skal hafna þátttöku í starfsaðferðum sem ekki samræmast mannréttindum eða siðgæðisvitund hans.

9. Í umræðu á opinberum vettvangi verður að vera ljóst hvort þroskaþjálfi talar sem einstaklingur eða sem fagmaður fyrir hönd stofnunar eða vinnustaðar.

10. Þroskaþjálfa ber að efla og kynna störf sín og forðast hvaðeina sem rýrt getur orðspor stéttarinnar.

11. Þroskaþjálfi skal stuðla að góðum samskiptum og samvinnu við aðra sérfræðinga, stofnanir og tengslanet. Mismunandi skoðanir og siðferðileg álitamál skal ræða að viðstöddum þeim sem málið varðar á hreinskiptinn og lýðræðislegan hátt.

12. Þroskaþjálfi má aldrei nota vald sitt í persónulegu hagsmunaskyni, misbeita því eða stofna til kynferðislegra samskipta við þann sem hann veitir þjónustu.

13. Þroskaþjálfi virðir starfsaðferðir, skyldur og ábyrgð annarra þroskaþjálfa. Komi upp faglegur ágreiningur skal þroskaþjálfi beita gagnrýni af sanngirni. Náist ekki sátt má leita álits siðanefndar Þroskaþjálfafélags Íslands.

14. Verði þroskaþjálfi, einstaklingur í þjónustu eða talsmaður hans þess var að þroskaþjálfi hafi brotið gegn siðareglum þessum ber honum að ræða það við þann sem í hlut á eða yfirmann hans. Beri ábendingar ekki árangur má óska eftir umfjöllun siðanefndar Þroskaþjálfafélags Íslands.